Hrylla sig yfir myndum af grófu ofbeldi

AFP

Tilvonandi kviðdómarar hrylltu sig yfir lýsingum og myndefni sem þeim var sýnt vegna máls bandarísks lögreglumanns sem sakaður er um að hafa lagt á ráðin um að myrða, nauðga og éta konur. Kviðdómurunum tilvonandi voru m.a. sýndar myndir af grófu ofbeldi gegn konum og sögðu sumir í kjölfarið að þeir væru í of miklu uppnámi til að geta verið hlutlausir í málinu.

„Ég skelf of mikið til að skrifa,“ sagði einn þeirra á föstudag. „Mér líður líkamlega mjög illa,“ sagði annar. „Óglatt,“ sagði sá þriðji.

„Sem konu þá hryllir mig við þessu,“ sagði ein. Hún sagði að myndirnar sem hún hefði þurft að sjá væru gríðarlega grófar og að fleiri sönnunargögn í málinu í þessa veru myndu aðeins gera sig reiða.

Í gær var fyrsti dagur réttarhaldanna yfir lögreglumanninum Gilberto Valle sem er ákærður fyrir samsæri og fyrir að hafa nýtt sér ólöglega aðgang að upplýsingum hins opinbera, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar.

Þær fjórar manneskjur sem lýstu viðbrögðum sínum við gögnum málsins hér að ofan eru meðal 29 kviðdómara sem hefur verið vísað frá málinu. 90 tilvonandi kviðdómarar svöruðu spurningum eftir að hafa séð myndir og heyrt lýsingar vegna málsins. Einn þeirra sagði að sönnunargögnin myndu valda sér martröðum.

Svörin voru lesin upp af dómara. Verjendur og saksóknarar munu nota helgina til að fara yfir þá hugsanlegu kviðdómara sem eftir standa og leggja fram sínar tillögur á mánudag.

Myndirnar sem fólkið sá voru sviðsettar og sýndu m.a. naktar konur þræddar á steikarteina með epli í munni. Á annarri mynd var kona bundin yfir opnum eldi.

Dómarinn varaði hugsanlega kviðdómendur við því að raunveruleg sönnunargögn málsins gætu vakið óhug. Meðal annars yrðu lögð fram smáskilaboð og tölvupóstur þar sem hinn ákærði lýsti í ítarlegum smáatriðum hvernig hann ætlaði að ræna, drepa og éta konur. Hann sagði að verjendur hans myndu segja að Valle hefði aldrei ætlað að myrða, nauðga eða éta eina einustu konu. Hann hefði aðeins verið að lýsa draumórum sínum.

Valle átti í miklum samskiptum við aðra sína líka á netinu. Á sumum vefsíðnanna var dreift óhugnanlegum myndum af grimmilegu ofbeldi.

Dómarinn sagði að þær myndir væru sönnunargögn í málinu og myndirnar sem sýndar voru hugsanlegum kviðdómurum væru í þeim anda.

Valle er 28 ára. Hann var handtekinn í haust. Saksóknarar halda því fram að hann hafi lagt á ráðin ásamt þremur öðrum um að ræna átta nafngreindum konum.

Til að tryggja hlutleysi kviðdómara eru margir kallaðir til en fáir útvaldir. Þeir sem ekki treysta sér til að gæta hlutleysis eru leystir frá störfum.

Dómarinn sagði sjálfur að hann teldi erfitt fyrir marga að sjá þau sönnunargögn sem lögð yrðu fram í málinu.

Aðalmeðferð málsins hefst 25. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert