Hörð átök í Malí

Franskir hermenn gráir fyrir járnum í bænum Gao.
Franskir hermenn gráir fyrir járnum í bænum Gao. AFP

Harðir skotbardagar hafa geisað í dag milli malískra hermanna og íslamskra skæruliða á götum bæjarins Gao í norðurhluta landsins.

Fréttaritari BBC sem er á staðnum segir að bardagarnir hafi hafist við lögreglustöðina í bænum en hafi svo breiðst út.

Í gær sprengdi sjálfsmorðsárásarmaður sig í loft upp í bænum.

Franskir og malískir hermenn náðu bænum Gao á sitt vald fyrir um tveimur vikum en hann hafði þá verið undir yfirráðum íslamistanna.

Öryggi hefur síðan þá verið hert í bænum. Íslamskar hreyfingar hafa hótað því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná Gao aftur á sitt vald. „Við ætlum að ráðast gegn Frökkunum og þeirra bandamönnum,“ sagði m.a. í yfirlýsingu frá einum hópnum.

Fréttaritari BBC segir að árásarmennirnir keyri vopnaðir byssum um bæinn á mótorhjólum. Hann segir að íbúar haldi sig innan dyra og að ástandið sé mjög ótryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert