ESB-ríki ekki einhuga um fríverslun

AFP

Ekki er einhugur um það á meðal ríkja Evrópusambandsins hversu víðfemur mögulegur fríverslunarsamningur við Bandaríkin eigi að vera. Þjóðverjar leggja þannig áherslu á að slíkur samningur hefði sem víðasta skírskotun á meðan Frakkar og fleiri ríki í suðurhluta Evrópu vilja að fríverslunarviðræðurnar nái ekki til ýmissa sviða eins og landbúnaðar og tengdra málaflokka.

Fram kemur á fréttavef þýska tímaritsins Der Spiegel að þýsk stjórnvöld óttist að fari ríki Evrópusambandsins fram á að ákveðnir málaflokkar verði undanþegnir viðræðunum eigi Bandaríkjamenn eftir að fara fram á slíkt hið sama. Niðurstaðan verði sú að aðeins náist takmarkað samkomulag um fríverslun.

Setningunni bætt við á síðustu stundu

Gert er ráð fyrir að viðræðurnar hefjist í júní í sumar í kjölfar þess að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, nefndi þær í stefnuræðu sinni fyrr á þessu ári. Fram kemur í fréttinni að setningu þess efnis hafi verið bætt inn í ræðu forsetans á síðustu stundu en bandarísk stjórnvöld hafi verið efins um að rétt væri að hefja fríverslunarviðræður við Evrópusambandið í ljósi efnahagserfiðleikanna innan sambandsins sem og vegna slæmrar reynslu af fyrri viðræðum við sambandið um viðskipti sem þeim hafi þótt einkennast af hringlandahætti.

Ennfremur segir að Obama telji fríverslunarsamning við ríki við Kyrrahafið mun mikilvægari en við Evrópusambandið en ákveðið hafi verið að opna á fríverslunarviðræður við sambandið til þess að hvetja ríki þess til þess að standa saman og í því skyni að standa vörð um samvinnu vestrænna ríkja.

Þá segir að bandarískir ráðamenn leggi áherslu á að samningaviðræðurnar gangi hratt fyrir sig og ljúki helst fyrir þingkosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Þolinmæðin gagnvart Evrópusambandinu verði því ekki mikil og verði of mikið hik á ríkjum þess kunni Bandaríkjamenn að leggja þess í stað enn meiri áherslu á fríverslun við Asíuríki.

Frétt Der Spiegel

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert