Bandaríkin hafa bæst í hóp þeirra sem krefjast skaðabóta frá fallna hjólakappanum Lance Armstrong vegna „svikinna loforða í áraraðir“. Kæra bandarískra ríkisins á hendur honum byggist á því að Armstrong hafi svikið fyrrverandi styrktaraðila sinn, bandarísku póstþjónustuna.
„Lance Armstrong og hjólalið hans þáðu ríflega 30 milljónir dala frá bandarísku póstþjónustunni (US Postal Service) gegn loforði þeirra um að keppa drengilega og fylgja reglunum, þar á meðal reglum gegn lyfjaneyslu,“ sagði Ronald Machen, lögmaður bandaríska ríkisins í dag.
„Þessi kæra er lögð fram til að aðstoða póstþjónustuna við að fá til baka þá tugi milljóna dala sem greiddir voru til Armstrong, vegna svikinna loforða í áraraðir. Í efnahagsumhverfi dagsins í dag þá er póstþjónustan einfaldlega ekki í neinni aðstöðu til að leyfa Lance Armstrong eða öðrum sakborningum að sleppa með tugi milljóna dala sem þeir komu höndum yfir á óheiðarlegan hátt.“