Hrossakjöt í sænskum kjötbollum

JENS-ULRICH KOCH

IKEA hefur tekið úr sölu kjötbollur eftir að hrossakjöt fannst í kjötbollum í sendingu sem átti að fara til verslunar fyrirtækisins í Tékklandi. Bollurnar voru framleiddar í Svíþjóð. Ekki er grunur um að kjötbollurnar hafi verið seldar í verslun IKEA hér á landi, en þær eru úr íslensku hráefni.

Landbúnaðarráðherra ESB koma saman til fundar í dag þar sem meginumræðuefnið verður hrossakjötshneykslið, en hrossakjöt hefur fundist í mörgum vörutegundum sem áttu að innihalda nautakjöt.

Sænsku kjötbollurnar eru enn ein staðfesting á því hversu útbreitt þetta vandamál er í Evrópu. Hrossakjötið fannst í sendingu sem átti að fara til Tékklands. Um er að ræða 760 kg af kjötbollum.

IKEA á Íslandi sendi frá sér tilkynningu vegna þessa máls. Þar segir: „Vegna umfjöllunar fjölmiðla um hrossakjöt í kjötbollum IKEA erlendis, vill IKEA á Íslandi koma á framfæri að allt kjöt sem notað er á veitingastað fyrirtækisins er íslensk framleiðsla. Kjötbollurnar á veitingastaðnum, og sem seldar eru í versluninni, eru framleiddar af fyrirtækinu Norðlenska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka