Segir bókina viðbjóðslega

Belle et Béte á að koma út á miðvikudag.
Belle et Béte á að koma út á miðvikudag. AFP

Fyrrverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, reynir nú að fá lögbann á nýja bók eftir hina argentínsku Marcelu Iacub en í bókinni lýsir hún sambandi þeirra.

Í bókinni Belle et Béte eða Fríða og dýrið, sem á að koma út á miðvikudag, lýsir Iacub ástarsambandi sem hún átti með Strauss-Kahn frá janúar til ágúst á síðasta ári. Í maí árið 2011 var hann handtekinn sakaður um að hafa reynt að nauðga herbergisþernu á hóteli sem hann gisti á í New York.

Í bókinni er Strauss-Kahn ekki nafngreindur en Iacub sagði í viðtali við tímaritið Le Nouvel Observateur að bókin fjallaði um hann en játaði um leið að hafa tekið sér skáldaleyfi á köflum.

Lögfræðingar Strauss-Kahn segir að þeir muni krefjast þess að bókinni verði ekki dreift í bókabúðir en þeir hafa höfðað mál gegn Iacub og útgefanda hennar, Stock, fyrir að hafa brotið friðhelgi einkalífs Strauss-Kahn.

Ef ekki verði fallist á að bann verði lagt við dreifingu bókarinnar munu þeir fara fram á að að inn í hvert eintak verði settur miði, án þess að tiltaka nánar hvað eigi að standa á miðanum. 

Strauss-Kahn, sem hefur lýst því yfir að bókin sé viðbjóður, fer fram á 100 þúsund evrur í skaðabætur frá Iacub og Stock og hann hefur farið fram á svipaða fjárhæð frá Le Nouvel Observateur.

Lögfræðingar Stock og Le Nouvel Observateur neituðu að tjá sig um kröfur Strauss-Kahn og lögfræðinga hans en dómari í París mun úrskurða í málinu klukkan 9 í fyrramálið að íslenskum tíma.

Í bókinni er komið inn á meintan kynferðisglæp í New York og mál gegn Strauss-Kahn í Frakklandi og skilnað hans og Önnu Sinclair en hún greindi frá því í júlí í fyrra að hún hafi sagt skilið við eiginmanninn til tuttugu ára.

Bók Iacub er ein af mörgum bókum, leikritum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum um harkalega byltu Strauss-Kahn af stalli. Maður sem allt benti til að yrði næsti forseti Frakklands þegar hann var handtekinn fyrir kynferðisglæp gagnvart hótelþernu í New York. Sá draumur varð að engu og eins var honum ekki stætt á öðru en að láta af starfi sínu sem forstjóri AGS.

Í desember sl. gerði hann samkomulag við Nafissatou Diallo, hótelþernu sem sakaði hann um nauðgunina í New York. Diallo höfðaði einkamál gegn Strauss-Kahn eftir að hætt var við að opinbert mál gegn honum af hálfu saksóknara í New York. Ekki hefur verið gefið upp hversu háa fjárhæð Diallo fær en heimildir franskra fjölmiðla herma að hún hafi fengið greiddar 6 milljónir Bandaríkjadala,

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka