Ætluðu að horfa á blóðið spýtast

Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að …
Gilberto Valle er kallaður mannætulöggan. Ekki er þó sannað að hann hafi étið mann.

Eiginkona „mannætulöggunnar“ svokölluðu sem nú er fyrir rétti í New York, átti erfitt með að fela angist sína er hún sagði frá því að eiginmaðurinn ætlaði að drepa hana og ræna, pynta og éta aðrar konur.

„Það átti að hengja mig upp á fótunum og skera mig á háls og þeir ætluðu að skemmta sér yfir því að sjá blóðið spýtast úr mér,“ sagði eiginkonan Kathleen Mangan-Valle við kviðdóm í dómshúsinu í Manhattan í gær.

Mangan-Valle, 27 ára, sagði einnig frá því að eiginmaðurinn hafi ætlað að setja eina konu í ferðatösku, draga hana út úr fjölbýlishúsinu þar sem hún býr og drepa hana. Þá ætlaði hann sér að nauðga tveimur öðrum konum. Svo átti að steikja þær lifandi yfir opnum eldi.

„Þjáningar kvennanna voru til að skemmta honum og hann vildi draga þær á langinn,“ sagði konan við kviðdóminn.

Eiginmaðurinn Gilberto Valle er ákærður fyrir að hafa ætlað að drepa konu og fyrir að hafa misnotað gögn úr gagnagrunni lögreglunnar en hann er lögreglumaður í New York. Hann er sagður hafa lagt á ráðinn um að ræna, nauðga og drepa konur og að éta þær svo. Réttarhöldin hófust í gær en þau hafa vakið mikla athygli.

Mangan-Valle brotnaði niður og grét á meðan hún flutti vitnisburð sinn. Erfiðast átti hún er verjandinn sýndi henni mynd af eiginmanninum að gefa dóttur þeirra hjóna að borða.

Valle heldur því fram að lýsingar hans á morðum og mannáti hafi aðeins verið hugarórar og að hann hafi aldrei ætlað að gera neitt í þeim. Saksóknari heldur því hins vegar fram að áætlanir hans hafi verið raunverulegar: Hann hafi ætlað að pynta og steikja konur.

Verjandi Valle, Julia Gatto, sagði hins vegar í opnunarræðu sinni við réttarhöldin í gær að ekki væri hægt að dæma fólk út frá hugsunum þess, jafnvel þótt þær væru viðbjóðslegar.

Mangan-Valle grunaði að ekki væri allt með felldu hjá eiginmanninum og kom njósnabúnaði fyrir í tölvu hans. Í ljós komu færslur hans og samskipti við aðra á netinu þar sem lagt var á ráðin um morð og mannát. Hún fór með gögnin til Alríkislögreglunnar.

Mangan-Valle neitaði að hitta lögfræðinga eiginmannsins áður en réttarhöldin hófust. „Þið eruð að verja manninn sem ætlaði að drepa mig, nei ég vildi ekki hitta ykkur,“ sagði hún í réttarsalnum í gær.

Valle mun sjálfur einnig bera vitni í málinu.

Frétt mbl.is: „Mannætulöggan“ ætlaði að nauðga

Frétt mbl.is: Hrylla sig yfir myndum af grófu ofbeldi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert