Frönsk stjórnvöld hafa hrundið af stað rannsókn á því hvort fiskmeti sé sú vara sem uppgefið er í innihaldslýsingu. Er talið að um sviksemi geti verið þar að ræða eins og í kjöti.
Benoit Hamon neytendamálaráðherra hefur til viðbótar við umfangsmiklar rannsóknir á kjötsvikum sent sérfræðinga í matvælasvikum útaf örkinni til að rannsaka hvort allt sé með felldu í sölu og framleiðslu á fiskmeti.
Munu sérfræðingar DGCCRF-stofnunarinnar taka sýni úr tilbúnum réttum og eins í fiskbúðum til að skoða hvort sá fiskur sé þar á ferðinni sem sagður er vera. Hvort sólflúra, lúða og vartari séu það í raun en ekki einhver ódýrari fiskur.
Hamon segir að forstjórar fyrirtækja sem uppvís verða að svikum á neytendum eigi yfir höfði sér háar fjársektir – allt að 180.000 evrur – og tveggja ára fangelsi. Sú refsing virtist þó ekki nógu þung til að fæla frá svindli og því yrðu refsiákvæði þyngd í nýrri neytendalöggjöf sem færi fyrir þingið í vor.
Fulltrúar DGCCRF afhjúpuðu 15.700 vörusvik í 740.000 eftirlitsferðum í 142.000 fyrirtæki í fyrra.