Fyrirætlanir forsætisráðherra Bretlands um að endursemja um veru landsins í Evrópusambandinu nýtur ekki stuðnings annarra leiðtoga innan sambandsins og úrsögn úr sambandinu yrði Bretum dýrkeypt. Þetta sagði forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, í ræðu sem hann flutti í London í dag.
Van Rompuy sagði ennfremur samkvæmt frétt AFP að Bretar hefði meiri áhrif á heimsmálin innan Evrópusambandsins en utan þess og líkti mögulegri úrsögn þeirra úr sambandinu við hjónaskilnað. Þeim væri frjálst að slíta sambandinu og það væri fullkomlega löglegt en það væri hins vegar ekki ókeypis.
Forsetinn sagði að fyrirætlanir Davids Cameron, forsætisráðherra Breta, að endurheimta vald yfir ýmsum sviðum sem framselt hefur verið til stofnana Evrópusambandsins njóti ekki stuðnings leiðtoga sambandsins. Sömuleiðis hefði það engin áhrif á þá þó Cameron hefði boðað þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu 2017.
Þá væri ekki einfalt að ganga úr Evrópusambandinu. „Þetta er ekki bara spurning um að ganga út. Þetta væri lagalega og stjórnmálalega gríðarlega flókið og óhagkvæmt mál. Ímyndið ykkur bara skilnað eftir 40 ára hjónaband.“ Hann sagði hagsmunum Breta best borgið innan Evrópusambandsins þar sem þeir gætu beitt sér fyrir umbótum.