Hefur þú séð Lyubov Orlova?

Lyubov Orlova sést hér við höfnina í St. Johns í …
Lyubov Orlova sést hér við höfnina í St. Johns í fyrra. Dan Conlin/Wikimedia Commons

Draugaskipið Lyubov Orlova, sem rekur nú stjórnlaust um Norður-Atlantshaf, hefur vakið mikla athygli víða um heim, en ýmsar getgátur eru nú uppi um hvar skipið sé nákvæmlega. Ástrali tekur nú þátt í leitinni með því að halda úti bloggsíðu. Auk þess hefur hann m.a. hafið sölu á stuttermabolum sem á stendur: „Hefur þú séð L. Orlova?“

Blaðamaður The Telegram í Kanada fjallar um málið, en hann bendir á að margir séu þeirrar skoðunar að það hefði átt að sökkva rússneska skemmtiferðaskipinu áður en það gat rekið stjórnlaust og mannlaust út á Norður-Atlantshaf. Aðrir eru ekki jafn þungir á bárunni og sjá skipið í öðru ljósi.

„Áður en að skipið er formlega horfið, þá hefur það orðið að einskonar goðsögn. Draugaskipið sem flýtur um Norður-Atlantshaf hefur vakið athygli um allan heim, jafnvel í Ástralíu,“ skrifar Josh Pennell.

Pennell sló inn nafnið Lyubov Orlova í leitarvél Google og þá komu upp ýmsar niðurstöður. M.a. bloggsíða og Facebook-síða þar sem spurt er hvar Lyubov Orlova sé niðurkomið. Pennell segir að Ástrali að nafni Steph [sem vildi ekki koma fram undir réttu nafni í greininni] sem sé búsettur í Melbourne eigi heiðurinn að þessum síðum.

Félagsfræðileg tilraun

Steph las fyrst um skipið á vef Huffington Post þann 21. febrúar sl. og hefur síðan þá fylgst grannt með ferðum þess. Hann segir að þarna hafi gefist tækifæri til að gera einskonar félagsfræðilega tilraun.

„Eftir að hafa lesið um skipið á netinu, þá ræddi ég við eiginkonu mína um leiðir sem eru færar fyrir okkur til að finna skipið. Vegna skorts á fjármagni, þá útilokuðum við gervihnetti og mannlaus loftför á lista yfir mögulegar lausnir,“ segir hann.

„Að lokum spratt fram sú hugmynd að stofna bloggsíðu sem skapar grundvöll til að safna upplýsingum um dragaskipið. Það má líta á þetta sem litla tilraun þar sem styrkur netsins að tengja saman upplýsingar er rannsakaður. Vitaskuld er auðvelt fyrir ríkisstofnun að finna skipið,“ segir Steph.

„Ímyndið ykkur hins vegar ef venjulegu fólki víða um heim takist í raun að finna draugaskipið einfaldlega með því að safna og sameina upplýsingum á netinu,“ bætir hann við.

Hann bendir á að margir bátar eða skip í einkaeigu séu á ferðinni um höfin og þau geti mögulega komið auga á Lyubov Orlova.

Á bloggsíðunni er að finna tæknilega upplýsingar um skipið, sögu þess og hvar það hefur sést. Þá er seldur varningur sem tengist leitinni að draugaskipinu.

Heitir í höfuðið á rússneskri kvikmyndastjörnu

Rússneska skemmtiferðaskipið Lyubov Orlova var smíðað í Júgóslavíu árið 1976 og heitir það í höfuðið á rússneskri kvikmyndastjörnu. Skipið, sem er 4.000 tonn og 100 metra langt, hefur verið mikið notað til siglinga um heimskautssvæðin.

Á vef Wikipedia kemur fram, að skipið hafi verið kyrrsett í St. Johns á Nýfundalandi í september árið 2010 vegna skuldar sem nam um 251.000 dölum (um 32 milljónir kr).  Auk þess höfðu allir í áhöfn skipsins, sem voru þá 51 talsins, ekki fengið greidd laun í fimm mánuði.

Svo fór að skipið var selt til Neptune International Shipping í febrúar í fyrra sem hugðist setja það í brotajárn.

Í lok janúar slitnaði skipið aftan úr dráttarbát sem var að draga það í brotajárn frá St. Johns á Nýfundnalandi áleiðis til Dominíska lýðveldisins. Í byrjun febrúar var skipið að reka í átt að olíuborpöllum undan strönd Nýfundnalands þegar brugðið var á það ráð að draga það frá borpöllunum og út á rúmsjó.

Landhelgisgæsla Íslands fylgist einni grannt með málinu og sagði í gær að engin leið væri að vita staðsetningu draugaskipsins fyrr en sjónræn staðfesting fengist.

Að lokum má geta þess að Twitter-síða sem er tileinkuð skipinu er reglulega uppfærð. Yfirskrift síðunnar er: „Ég er einmana skip sem vill komast heim“.

Einn af bolunum sem eru nú til sölu.
Einn af bolunum sem eru nú til sölu.
Sagan segir að skipið reki nú í áttina til Noregs …
Sagan segir að skipið reki nú í áttina til Noregs með fullfermi af rottum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert