Matvælaeftirlitið í Suður-Afríku hefur nú hafið rannsókn á því hvernig kjöt af öpum, vatnabuffalóum og geitum slæddist inn í matvöru sem var merkt sem kjöt af öðrum dýrum.
Eftir hrossakjötshneykslið í Evrópu, sem engan endi virðist ætla að taka, ákváðu yfirvöld í Suður-Afríku að láta vísindamenn við Stellenbosch háskóla kanna innihald algengra tilbúinna matvæla, sem seld eru í stórverslunum og þetta var niðurstaðan.
Að auki leiddi rannsóknin í ljós að meira en einn þriðji þeirra matvæla sem rannsakaður var, innihélt „óskilgreind innihaldefni“ og að 68% matvælanna innihéldu eitthvað allt annað kjöt en upp var gefið á umbúðum og var algengast að svínakjöt og kjúklingur kæmi í stað þess. Að auki fundust ýmsar jurtaafurðir í því sem sagt var vera hreint kjöt.
Talsmaður matvælaeftirlitsins segir í samtali við AFP-fréttastofuna að sá aðili, sem fyrst verði rannsakaður, verði verslanirnar sjálfar, en allir sem komi að framleiðslunni með einum eða öðrum hætti liggi undir grun.