Biður um frið, Chavez til handa

Einn af stuðningsmönnum Hugo Chavez með fána sem á stendur: …
Einn af stuðningsmönnum Hugo Chavez með fána sem á stendur: „Ég er Chavez“. AFP

Utanríkisráðherra Venesúela, Elias Jaua, beiddist þess í dag að Hugo Chavez, forseti landsins, fengi að jafna sig í friði og ró eftir meðferð, sem hann gekkst nýlega undir vegna krabbameins.

Chavez er nú á sjúkrahúsi í Karakas, höfuðborg Venesúela, þar sem hann hefur legið síðan um miðjan febrúar eftir tveggja mánaða meðferð á Kúbu.

„Við viljum sjá Chavez ná sér og verða heilbrigðan og við viljum að hann fái ró og frið á meðan hann mun undirgangast þær meðferðir sem eru honum nauðsynlegar,“ sagði Jaua.

„Við munum ekki lúta í lægra haldi fyrir þeim sem vilja ekki að Chavez nái heilsu; þeim sem nota fjárkúgun og glæpsamlegt athæfi til að fá sitt fram,“ sagði hann og átti þar við stjórnarandstöðu landsins sem hefur sakað stjórnvöld um að leyna almenning upplýsingum um heilsufar forsetans.

Forsetinn er með krabbamein í mjöðm og  hefur farið í fjórar aðgerðir vegna þess, þá síðustu í desember. Hann hefur ekki sést opinberlega í tæpa þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert