Sást ekkert undanfarinn mánuð

„Við höfum fengið erfiðustu og hörmulegustu upplýsingar þess efnis að foringi okkar, forsetinn Hugo Chaves, lést í dag kl. 4.25 eftir hádegi,“ sagði tárvotur varaforseti Venesúlea, Nicolas Maduro, í beinni útsendingu í ríkissjónvarpi landsins frá hersjúkrahúsinu í Caracas þar sem Chavez lá banaleguna.

Chavez sem var 58 ára var lagður inn á sjúkrahúsið 18. febrúar síðastliðinn til að halda áfram geislameðferð eftir tveggja mánaða krabbameinsmeðferð á Kúbu, þar sem hann gekkst í desember undir fjórðu aðgerðina síðan í júní 2011.

Undanfarinn mánuð sást hann aðeins á fáeinum ljósmyndum, og þá frá sjúkrarúminu í Havana á Kúbu. Þar brosti hann í faðmi tveggja dætra sinna.

Síðustu vikur hafa afar misvísandi skilaboð borist frá stjórnvöldum í Venesúela um ástand Chavez; einn daginn barðist hann fyrir lífi sínu en þann næsta var hann ennþá við stjórn sem forseti landsins og tók ákvarðanir um málefni þjóðar sinnar.

Aðeins eru fimm mánuðir síðan Chavez hlaut endurkjör sem forseti Venesúela. Hann reyndar var fjarverandi þegar setja átti hann aftur í embætti en því var frestað með velvilja Hæstaréttar.

Ein af síðustu ljósmyndum sem birtust af Chavez, frá Kúbu.
Ein af síðustu ljósmyndum sem birtust af Chavez, frá Kúbu. APF
Chavez með dætrum sínum á sjúkrarúminu í Havana á Kúbu.
Chavez með dætrum sínum á sjúkrarúminu í Havana á Kúbu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert