Búist við að páfakjörið taki sinn tíma

Kardínálar kaþólsku kirkjunnar komu saman til bænahalds í Péturskirkjunni í Róm í morgun áður en þeir halda til Sixtínsku kapellunnar þar sem þeir munu kjósa næsta páfa. Kjörfundur hefst síðdegis og segja sérfræðingar í málefnum Páfagarðs að kjörið muni taka töluvert lengri tíma en þegar Jósef Ratzinger, sem varð Benedikt XVI, var kjörinn árið 2005.

Angelo Sodano, kardínáli og utanríkisráðherra Páfagarðs, bað kardínálana um að hylla Benedikt XVI, sem kom heiminum á óvart með afsögn sinni fyrir nokkrum vikum, fyrstur páfa í meira en 700 ár til að segja af sér embætti.  Kardínálarnir létu sitt ekki eftir liggja og við glumdi hávært lófaklapp þeirra.

Messan var sýnd á stórum skjá fyrir framan kirkjuna.

Kjörfundurinn hefst klukkan 15:30 að íslenskum tíma og er búist við fyrstu kosningu síðdegis. Síðan verður kosið fjórum sinnum á dag, tvisvar að morgni og tvisvar síðdegis, uns einhver einn af kardínálunum fær tvo þriðju hluta atkvæða, 77 eða meira.

Stræti og torg Rómar eru þéttskipuð fjölmiðlafólki, kaþólikkum og áhugasömum ýmissar trúar sem fylgjast grannt með þróun mála. Fjöldi fólks safnaðist saman á Péturstorginu í hádeginu í dag og bað þar fyrir páfakosningunni.

Kardínálarnir í Péturskirkjunni í morgun.
Kardínálarnir í Péturskirkjunni í morgun. AFP
Einn kardínálanna, Peter Kodwo Appiah Turkson frá Gana.
Einn kardínálanna, Peter Kodwo Appiah Turkson frá Gana. AFP
Bandaríski kardínálinn Justin Francis Rigali í Péturskirkjunni í morgun.
Bandaríski kardínálinn Justin Francis Rigali í Péturskirkjunni í morgun. AFP
Ruben Salazar Gomez, kardínáli frá Kólumbíu, í Péturskirkjunni í morgun.
Ruben Salazar Gomez, kardínáli frá Kólumbíu, í Péturskirkjunni í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka