Páfakjör hefst í dag

Þessi mynd var tekin við síðasta páfakjör, árið 2005, og …
Þessi mynd var tekin við síðasta páfakjör, árið 2005, og sýnir kardínálana ganga fylktu liði inn í Sixtínsku kapelluna. AFP

115 kardínálar koma saman í Sixtínsku kapellunni í Vatíkaninu í Róm síðdegis í dag vegna kjörs á eftirmanni Benedikts XVI. Búist er við því að fyrsta kosningin fari fram í dag. Næstu dagana munu kardínálarnir kjósa fjórum sinnum á dag uns niðurstaða næst; tvisvar að morgni og tvisvar síðdegis.

Þrír kardínálar hafa helst verið nefndir sem líklegir arftakar Benedikts XVI. Það eru Ítalinn Angelo Scola, Brasilíumaðurinn Odilo Scherer og Marc Ouellet frá Kanada. Allir eru þeir sagðir vera afar íhaldssamir.

Kjörið fer eftir aldagömlum reglum.

Kardínálarnir fá afhenta kjörseðla sem á er letrað: Eligo in Summum Pontificem eða „Ég kýs sem yfirmann kirkjunnar“ og þar á eftir er autt svæði þar sem skrifa á nafn þess sem kosinn er. Atkvæðin eru síðan lögð á disk, þau færð í silfurker, síðan færð í annað ker og að því búnu talin til að ganga úr skugga um að allir hafi kosið.

Hvítur reykur merki um nýjan páfa

Þrír kardínálar, sem útnefndir hafa verið til þess verks, telja síðan atkvæðin og lesa upphátt nöfnin sem á seðlunum standa. Þeir eru síðan brenndir í eldstó í kapellunni. Fái einhver 77 atkvæði, sem eru tveir þriðju og sé þar með kjörinn páfi, stígur hvítur reykur upp úr reykháfi hennar, en sé ekki svo er reykurinn svartur. 

Lokaðir af frá umheiminum

Kardínálarnir eru með öllu lokaðir frá umheiminum á meðan á páfakjöri stendur. Þeir halda til í byggingu í Vatíkaninu á milli þess sem þeir kjósa í Sixtínsku kapellunni og þeir mega ekki tjá sig á neinn hátt um framgang kosningarinnar, að viðlagðri bannfæringu.

Lengsta páfakjör á síðari tímum var árið 1922 og tók fimm daga. Kjör Benedikts XVI tók tvo daga eða fjórar umferðir og forveri hans á páfastóli, Jóhannes Páll II, var kjörinn eftir þrjá daga eftir átta umferðir.

Péturskirkjan í Róm.
Péturskirkjan í Róm. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka