Tíst myndi kosta kardínála bannfæringu

Péturstorgið í Róm.
Péturstorgið í Róm. AFP

Kardínálar kaþólsku kirkjunnar halda nú til Casa Santa Martha, þeirrar byggingar í Vatíkaninu þar sem þeir munu dvelja á meðan á páfakjöri stendur. Eftir að þeir eru komnir þangað mega þeir ekki hafa samband við umheiminn á nokkurn hátt, þar með talið eru tölvusamskipti. Verði kardínáli uppvís að því að tísta á Twitter verður hann bannfærður.

Því notuðu margir kardínálanna síðasta tækifærið til að tísta nú í morgunsárið. 

„Síðasta tíst fyrir páfakjör: Megi guð faðir heyra og svara með ást og miskunn allar bænir og fórnir sem færðar eru til að það megi fara sem best,“ tísti Wilfrid Napier sem er kardínáli frá Suður-Afríku.

„Síðasta tíst áður en ég flyt mig í Casa Santa Martha,“ tísti bandaríski kardínálinn Roger Mahoney í morgun. 

Truflunarbúnaður, sem settur hefur verið upp í dvalarstað kardínálanna, sér til þess að þeir komast ekki á netið. En verði þeir t.d. uppvísir að því að skrifa stöðuuppfærslur á Twitter, verða þeir bannfærðir.

Systir Mary Ann Walsh, sem er talsmaður kaþólska biskuparáðsins í Bandaríkjunum, viðraði áhyggjur sínar af gangi mála á Twitter-síðu sinni í morgun. 

„Á þessari tölvuöld, þá óttast ég að sumir kardínálarnir muni líða af fráhvarfseinkennum vegna skorts á spjaldtölvum og Twitter.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert