„Hún sagði aldrei skýrt nei“

Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu …
Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu má sjá piltana tvo bera stúlkuna rænulausa á milli sín.

Réttarhöld hefjast í dag í hópnauðgunarmálinu sem skekið hefur smábæinn Steubenville í Ohio. Tveir piltar sem báðir eru í fótboltaliði bæjarins eru ákærðir fyrir að nýta sér ölvunarástand 16 ára stúlku til að koma fram vilja sínum gegn henni. Verjandi þeirra segir að aldrei hafi verið gefið til kynna að hún væri andsnúin kynmökum.

Samfélagsmiðlar hafa komið mjög við sögu í málinu, sem hófst 11. ágúst 2012 þegar krakkarnir, sem allir voru 16 ára og undir lögaldri, voru að skemmta sér. Stúlkan varð ofurölvi og fjórir piltar þvældust með hana úr einu partýi í annað og að endingu var henni nauðgað af tveimur þeirra, samkvæmt ákæru.

Tíst um atburði kvöldsins

Athæfið tóku partýgestir upp á farsíma og rötuðu bæði ljósmyndir og vídjóupptökur á netið. Þremur dögum síðar lagði móðir stúlkunnar fram nauðgunarkæru til lögreglu og vísaði m.a. skjáskotum af Twitter þar sem unglingar í bænum grínuðust með atburði kvöldsins sín á milli. „Lag kvöldsins er tvímælalaust Rape me með Nirvana“ sagði í einu tísti.

Eftir að nauðgunarkæran var komin fram var mikið af myndefninu tekið út af netinu aftur, en það dugði ekki til því tölvuhakkarahópurinn Anonymous hefur látið sig málið varða og grafið sumt efnið upp aftur, að því er fram kemur á CNN.

Ein ljósmynd frá kvöldinu hefur vakið hvað mesta athygli og er hún birt hér að ofan. Á henni má sjá piltana tvo, Trent Mays og Ma'lik Richmond, halda á stelpunni á milli sín, að því er virðist algjörlega rænulausri. 

„Nauðguðu henni hraðar en Mike Tyson“

Anonymous hópurinn birti einnig 12 mínútna langt myndskeið þar sem strákar í bænum gera grín að því að stúlkan hafi verið áfengisdauð og hlæja sig hása. „Hvað myndirðu samt gera ef þetta væri dóttir þín?“ heyrist einn þeirra segja. „Ef hún væri dóttir mín væri mér alveg sama, ég myndi bara láta hana vera dauða,“ segir þá annar og hlær.

Þá ýja þeir að því að migið hafi verið yfir stelpuna án þess að hún vaknaði. „Þeir nauðguðu henni hraðar en Mike Tyson nauðgaði stelpunni þarna,“ segir einn piltanna og allir springa úr hlátri.

Talið er að minnst þrjú vitni hafi samþykkt að koma fyrir dóminn og lýsa því að stúlkunni hafi verið nauðgað margsinnis þegar hún var varla með meðvitund.

Ældi yfir sjálfa sig

Þrátt fyrir þetta mun málsvörn piltanna, samkvæmt bandarískum fjölmiðlum, byggja á því að samþykki stúlkunnar hafi legið fyrir, eða í öllu falli að hún hafi ekki gefið nógu skýrt til kynna að hún væri piltunum andsnúin.

Saksóknarinn Marianne Hemmeter segir alveg ljóst af máli vitna að stúlkan hafi verið of ölvuð til að geta samþykkt kynmök. „Allir sammælast um að hún hafi verið ælandi. Hún ældi yfir sjálfa sig. Það þurfti að hjálpa henni að ganga. Hún gat ekki gengið. Hún skjögraði.“ Sjálf sagði stúlkan lögreglu að hún muni ekkert hvað gerðist eftir að hún yfirgaf vini sína og fór upp í bíl með strákunum fjórum.

Sagði aldrei nei

Samkvæmt dagblaðinu The Plain Dealer í Ohio byggir Walter Madison, verjandi annars piltanna, einmitt á þessu upphafi kvöldsins, þ.e. að stúlkan hafi viljandi drukkið sig fulla og enginn hafi þvingað hana til fara með strákunum fjórum í önnur partý. 

 „Það er nóg af sönnunargögnum fyrir því að hún hafi tekið meðvitaðar ákvarðanir. Hún sagði aldrei skýrt nei.“ Madison leiðir að því líkum að stúlkan hafi svo séð eftir öllu saman eftir á, vegna þess að hún skammaðist sín þegar foreldrar hennar komust að því að hún stundi kynlíf.

Hann rökstyður mál sitt m.a. með því að stúlkan hafi ekki viljað koma fram opinberlega og tjá sig um málið. „Hún er þögul núna alveg eins og hún var þetta kvöld, og það er vegna þess að samþykkið lá fyrir.“

Réttað verður í málinu fyrir unglingadómstól af gestkomandi dómara sem hefur engin tengsl við samfélagið í Steubenville. Enginn kviðdómur verður skipaður heldur fer dómarinn einn með valdið. Verði piltarnir fundnir sekir gætu þeir verið sendir á unglingaheimili þar til þeir ná 21 árs aldri. 

Frétt mbl.is: Nauðgunarkæra skekur smábæ

Frétt mbl.is: Réttað í Steubenvillemálinu í mars

Mótmæli hafa verið boðuð í dag við dómshúsið þar sem …
Mótmæli hafa verið boðuð í dag við dómshúsið þar sem réttað er yfir unglingspiltunum tveimur.
Fótboltaliðið í Steubenville er eitt helsta stolt bæjarbúa og íþróttastrákarnir …
Fótboltaliðið í Steubenville er eitt helsta stolt bæjarbúa og íþróttastrákarnir gríðarlega vinsælir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert