Nýr páfi er frá Argentínu

Jorge Bergoglio kardínáli frá Argentínu var í dag kosinn páfi kaþólsku kirkjunnar. Hann hefur tekið sér nafnið Frans. Hann er 76 ára gamall og fyrsti páfinn sem kemur frá S-Ameríku.

Bergoglio hefur verið erkibiskup í Buenos Aires í Argentínu frá 1998. Hann varð kardínáli árið 2001. Bergoglio er af ítölskum ættum, en faðir hans flutti frá Ítalíu til Argentínu snemma á síðustu öld.

Frans ávarpaði mannfjöldann á Péturstorgi um kl. 19:20 og sagði að svo virtist sem bræður sínir í kirkjunni hefði farið langa leið til að velja næsta biskup Rómar. Hann bað síðan fyrir forvera sínum, Benedikt páfa emeritus.

Bergoglio var einn af þeim sem kom sterklega til greina sem eftirmaður Jóhannesar Páls II. árið 2005. Þá var Joseph Ratzinger fyrir valinu.

„Habemus Papam“

Hvítur reykur kom úr reykháf Sixtinskukapellunni í Vatíkaninu um kl. 18:08 í dag. Þúsundir manna sem beðið höfðu tíðinda á Péturstorginu í Róm fögnuðu tíðindunum innilega. Rignt hefur í Róm í mestallan dag, en um það leyti sem ljóst var að nýr páfi hefði verið kjörinn stytti upp.

Um klukkutíma eftir að reykjarmerki bárust frá kapellunni steig Jean-Louis Tauran kardínáli fram á svalir Péturskirkjunnar og sagði „Habemus Papam“ (Við höfum eignast páfa) og nefndi síðan nafn nýs páfa.

Benedikt XVI. páfi lýsti því óvænt yfir 11. febrúar sl. að hann ætlaði að láta af embætti. Hann er 85 ára gamall og hefur verið páfi í tæplega átta ár. Hann sagðist ekki hafa lengur heilsu til að gegna starfinu.

Benedikt XVI. var 78 ára gamall þegar hann var kjörinn páfi. Forveri hans í embætti, Jóhannes Páll II., var hins vegar aðeins 58 ára gamall og gegndi embættinu í 23 ár.

Eftir að páfi hefur verið kjörinn er hann formlega spurður hvort hann samþykki kjörið og með því samþykki verður hann páfi.

Hver páfi verður að velja sér nafn en þessi siður á rót sína að rekja allt til 10. aldar. Það eru engar sérstakar reglur um það hvernig nýr páfi velur sér nafn en gjarnan velur hann nafn dýrlings sem hann heldur upp á eða nafn sem annar páfi hefur borið og heiðrar þannig minningu hans. Aldrei hefur nýkjörinn páfi valið sér nafn fyrsta páfans, Péturs postula sjálfs.

Frans er 266. páfinn.
Frans er 266. páfinn. VINCENZO PINTO
Frans talaði til þeirra tugþúsunda sem beðið hafa eftir nýjum …
Frans talaði til þeirra tugþúsunda sem beðið hafa eftir nýjum páfa á Péturstorgi í allan dag. FILIPPO MONTEFORTE
Jorge Bergoglio fæddist í Argentínu 17. desember árið 1936.
Jorge Bergoglio fæddist í Argentínu 17. desember árið 1936. FILIPPO MONTEFORTE
Benedict XVI. tók á móti Jorge Mario Bergoglio árið 2007.
Benedict XVI. tók á móti Jorge Mario Bergoglio árið 2007. OSSERVATORE ROMANO
Nýr páfi, Frans á svölum Péturskirkjunnar í Róm.
Nýr páfi, Frans á svölum Péturskirkjunnar í Róm. FILIPPO MONTEFORTE
Jorge Mario Bergoglio
Jorge Mario Bergoglio MARCO LONGARI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka