„Sonur minn er enginn páfi“

115 kardínaálar eru saman komnir í Vatíkaninu til að greiða …
115 kardínaálar eru saman komnir í Vatíkaninu til að greiða atkvæði um nýjan páfa. Ljósmynd/Vatíkanið

Einhverjir foreldrar yrðu kannski ánægðir með að sjá son sinn verða æðsta leiðtoga kaþólsku kirkjunnar. Það á þó ekki við um Eleonore Schoenborn, 92 ára gamla móður austurrísks kardínála sem er einn af kandídötunum um embættið.

„Það væri allt of mikið fyrir hann Christop að verða páfi, það yrði of erfitt fyrir hann. Hann er of góður fyrir þetta starf,“ hefur dagblaðið Kronen-Zeitung eftir hinni öldruðu móður.

Sonur hennar, Christoph Schoenborn, er einn 115 kardínála sem eru þessa stundina lokaðir inni í Sixtínsku kapellunni í Vatíkaninu þar sem páfakjör hófst í gær.

Móður hans líst ekkert á blikuna. „Ef hann flytur í alvöru til Rómar þá sé ég hann aldrei aftur. Ég er of gömul fyrir svoleiðis ferðalag. Það myndi þýða að ég þyrfti að kveðja hann fyrir fullt og allt.“

Þrátt fyrir áhyggjurnar þarf Schoenborn ekki að örvænta því þótt sonur hennar sé kjörgengur þykir ólíklegt að hann verði páfi þar sem hann yrði þá annar páfinn í röð til að tala þýsku að móðurmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert