Vona að páfinn láti af fordómum

Mannréttindasamtök binda nú vonir við að afstaða kaþólsku kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra taki breytingum í kjölfar embættistöku hins nýja páfa, Frans I.

„Áratugum saman hefur kaþólska kirkjan sárlega þurft á umbótum að halda. Jesús fordæmdi aldrei samkynhneigða á lífstíð sinni. Í sinni stuttu páfatíð gerði Benedikt páfi það hinsvegar að forgangsmáli hjá sér að fordæma samkynhneigt fólk reglulega,“ segir m.a. í yfirlýsingu Herndons Graddick, formanns GLAAD (bandarískra samtaka sem berjast gegn fordómum í garð samkynhneigðra), sem birtist á fréttavefnum Huffington Post fyrr í kvöld.

Í störfum sínum sem kardínáli hefur Frans I, sem heitir réttu nafni Jorge Mario Bergoglio, tekið harða afstöðu gegn samkynhneigðu fólki, hjónabandi þess og rétti þess til að ættleiða börn. Þannig er Frans I sagður hafa lýst hjónabandi samkynhneigðra sem afurð djöfulsins og „skaðlegri árás á áætlun guðs.“ Jafnframt mun hann hafa lýst ættleiðingum af hálfu samkynhneigðra sem eins konar mismunun gagnvart börnum.

Í yfirlýsingu sinni bregst Graddick einnig við fyrrnefndum ummælum páfans. „Hin raunverulega mismunun gegn börnum eru þau kynferðisafbrot gegn börnum sem hafa breiðst út án nokkurra hamla innan kirkjunnar með litlu öðru en leynimakki frá Vatíkaninu,“ segir í yfirlýsingu Graddicks.

Þá segist formaður bresku Stonewall-samtakanna, sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra, vona að Frans I páfi muni sýna samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki meiri kristilegan kærleik en forveri hans.

Nánar má lesa um málið á fréttavefnum Huffington Post.

Frans I páfi.
Frans I páfi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka