Auðmjúkur páfi heilsaði upp á íbúa Rómarborgar

Frans I páfi hefur í mörg horn að líta enda …
Frans I páfi hefur í mörg horn að líta enda ærin verkefni framundan. AFP

Fyrsti dagur Frans páfa sem nýs yfirmanns kaþólsku kirkjunnar hefur farið í að hitta íbúa Rómarborgar. Síðar í dag verður sungin messa í Sixtínsku kapellunni með kardínálum.

Að lokinni bænastund sem fram fór í næði í Santa Maria Maggiore-basilíkunni gekk Frans páfi yfir götuna til að heimsækja skóla í nágrenninu. Hann talaði við börn og fólk sem var á leið til vinnu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Að því loknu fór páfi, sem er 76 ára gamall, í aðsetur presta í Piazza Navona. Þar sótti hann eigur sínar og greiddi reikninga.

BBC segir að Frans páfi muni svo útnefna nýja yfirmenn í Páfagarði.

Heillaóskir hafa borist nýjum páfa, sem er frá Argentínu, hvaðanæva úr heiminum. Hann er fyrsti páfinn sem kemur frá Rómönsku Ameríku og fyrsti jesúítinn. Hann gekk áður undir nafninu Jorge Mario Bergoglio.

Ljóst þykir að Frans páfi stendur frammi fyrir mörgum erfiðum verkefnum. Hann þarf m.a. að lægja öldurnar innan kaþólsku kirkjunnar vegna innbyrðis deilna. Þá þarf hann að takast á við hneykslismál sem varða presta kaþólsku kirkjunnar, sem eru m.a. sakaðir um kynferðisbrot gegn börnum og spillingu.

Til marks um hógværð og auðmýkt Frans páfa, bað hann mannfjöldann sem safnaðist saman á Péturstorginu í Róm að blessa sig áður en hann blessaði mannfjöldann af svölum Péturskirkjunnar.

Þá afþakkaði páfi að vera ekið um í sérútbúinni bifreið og njóta verndar öryggisvarða þegar hann hélt til Páfagarðs. Hann ákvað að taka strætisvagn með öðrum kardínálum í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka