Óvíst um smurningu Chavez

Venesúelamenn við glerkistu þar sem jarðneskar leifar Hugo Chavez hvíla.
Venesúelamenn við glerkistu þar sem jarðneskar leifar Hugo Chavez hvíla. AFP

Óvíst er hvort gerlegt reynist að smyrja lík Hugo Chavez, forseta Venesúela, sem lést fyrir níu dögum, þann 5. mars. Til stóð að gengið yrði þannig frá jarðneskum leifum hans að þær yrðu varðveittar til „eilífðarnóns“. En nú eru blikur á lofti, því lík hans var til sýnis svo dögum skipti, tugþúsundir manna flykktust að til að votta hinum látna leiðtoga virðingu sína og nú gæti verið helst til seint að smyrja jarðneskar leifar hans.

„Við höfum fengið til okkar færustu sérfræðinga heims á þessu sviði, frá Rússlandi og Þýskalandi,“ sagði Nicolas Maduro, starfandi forseti Venesúela í samtali við AFP-fréttastofuna. „Athuganir þeirra hafa leitt í ljós að það gæti verið ýmsum vandkvæðum bundið að smyrja lík Chavez þannig að það verði hægt að sýna það almenningi.“

„Við hefðum þurft að grípa til nauðsynlegra aðgerða miklu fyrr.“

Í félagsskap Stalíns og Mao

Með smurningunni átti Chavez að bætast í félagsskap ekki ómerkari manna en Jósefs Stalíns, Ho Chi Minh og Mao Zedong, en lík allra þeirra hafa verið smurð og sýnd almenningi. Varðveisla á líki hans átti að „fylla upp í ákveðið pólitískt tóm eftir dauða hans“.

Til stóð að líkið yrði til sýnis í fyrirhuguðu Byltingarsafni. Ákveðinn þrýstingur er þó meðal almennings um að Chavez muni, þegar fram í sækir, liggja við hlið suðuramerísku sjálfstæðishetjunnar Simon Bolivar, sem Chavez vísaði oft til sem fyrirmyndar sinnar og innblásturs. Markmiðið með því að varðveita lík forsetans er að tryggja að hugmyndafræði hans,  „Chavismi“, viðhaldist í Venesúela og að stjórnarfarið muni áfram byggja á henni.

Forsetakosningar verða haldnar í landinu þann 14. apríl næstkomandi. Maduro býður sig fram og a.m.k. einn annar hefur þegar tilkynnt um framboð sitt, Henrique Capriles sem er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í landinu.

Hugo Chavez var geysivinsæll meðal íbúa Venesúela og hefur mikil …
Hugo Chavez var geysivinsæll meðal íbúa Venesúela og hefur mikil sorg ríkt í landinu frá fráfalli hans. AFP
Fánar og skilti með mynd hins látna forseta eru algeng …
Fánar og skilti með mynd hins látna forseta eru algeng sjón í Venesúela. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert