Meðhöndluð „eins og leikfang“

Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur komist í …
Smábærinn Steubenville í Ohio ríki í Bandaríkjunum hefur komist í heimsfréttirnar undanfarna mánuði og ekki af góðu.

„Þeir meðhöndluðu hana eins og hún væri leikfang,“ sagði saksóknari í Steubenville-málinu svokallaða í gær, þar sem tveir unglingspiltar í Ohio í Bandaríkjunum eru sakaðir um grófa kynferðisárás gegn jafnöldru sinni. Félagi þeirra bar vitni í gær og sagðist hafa boðið greiðslu hverjum þeim sem pissaði á stúlkuna þar sem hún lá rænulaus á götu.

Stúlkan kærði piltana fyrir hrottafengna nauðgun í ágúst síðastliðnum. Þeir eru báðir í fótboltaliði menntaskóla bæjarins, en liðið er óskabarn bæjarins og liðsmenn nánast í guðatölu.

Réttarhöldin hófust í fyrradag, en piltarnir, Ma'lik Richmond 16 ára og Trenton Mays 17 ára,  eru ákærðir fyrir mannrán og nauðgun. Samkvæmt framburði stúlkunnar hitti hún piltana í partýi. Hún var ölvuð og henni voru gefin deyfilyf og síðan var farið með hana í nokkur partý.

Piltarnir höfðu þvaglát yfir hana fyrir framan hóp fólks, niðurlægðu hana og viðhöfðu ýmsar kynferðislegar athafnir með henni fyrir framan aðra sem tóku athæfið upp á síma, bæði sem myndir og myndskeið og rataði margt af því á netið. Sumu var síðar eytt, en tölvuhakkarahópurinn Anonymous hefur látið málið til sín taka og grafið upp sumt af því efni sem eytt hafði verið.

Lögregla náði þó ýmsum sönnunargögnum og tók m.a. 17 farsíma í sína vörslu, en þeir innihéldu ýmist efni sem tengist málinu.

Mundi ekkert frá kvöldinu

Í gær lagði saksóknari fram sms-skilaboð, m.a. frá stúlkunni til vina sinna og kunningja og voru þau send daginn eftir að meintur glæpur átti sér stað. Þar segist hún ekki muna eftir neinu frá kvöldinu áður, en hana gruni að henni hafi verið byrluð ólyfjan og að einhverjir hafi notfært sér ástand hennar.

Hingað til hafa báðir piltarnir neitað sök og byggir vörn þeirra á því að stúlkan hafi ekki gefið nægilega skýrt til kynna að hún væri athæfinu andsnúin.

Bauð verðlaun fyrir að pissa á stúlkuna

Marianne Hemmeter, saksóknari í málinu, lýsti atburðum við réttarhöldin í gær og sagði að piltarnir hefðu meðhöndlað stúlkuna „eins og hún væri leikfang“. Fjöldi unglinga hefur borið vitni í málinu, eitt þeirra er 17 ára gamall vinur sakborninganna. Hann sagðist hafa séð stúlkuna sitja fyrir framan hús nokkurt þar sem partí var í gangi og að hún hafi verið afar drukkin. 

„Ég bauð hverjum þeim, sem myndi pissa á hana, þrjá dollara í verðlaun,“ sagði hann. Enginn mun hafa þekkst boðið og síðan sá hann stúlkuna liggja á götunni í eigin ælu. „Mér heyrðist hún umla eitthvað óskiljanlegt,“ sagði vitnið.

Komu ekki til hjálpar

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna að þeir, sem létu hjá líða að koma stúlkunni til hjálpar, hafi sloppið við ákærur. Augljóst sé af gögnum málsins að fjölmargir hafi orðið vitni að atburðum, en ekkert gert til þess að hindra það sem var í gangi.

Réttarhöldin halda áfram í dag og á morgun og mun þeim væntanlega ljúka á sunnudaginn og þá gæti úrskurður legið fyrir. Verði piltarnir fundnir sekir, gætu þeir verið dæmdir í unglingafangelsi þar til þeir ná 21 árs aldri. 

Margir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið, meðal annars The Guardian, NBC og ABC.

Frétt mbl.is: Nauðgunarákæra klýfur smábæ

Frétt mbl.is: „Hún sagði aldrei skýrt nei“

Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu …
Á þessari mynd sem gekk manna á milli á netinu má sjá piltana tvo bera stúlkuna rænulausa á milli sín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert