Kýpur fær 10 milljarða evra neyðarlán

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, sést hér ræða við Koen Geens, …
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, sést hér ræða við Koen Geens, fjármálaráðherra Belgíu, á fundinum í gær. AFP

Fjármálaráðherrar Evruríkjanna hafa samþykkt að veita Kýpur 10 milljarða evra neyðarlán til að koma í veg fyrir að ríkið verði gjaldþrota.

Samkomulag náðist eftir viðræður sem fram fóru í Brussel í Belgíu á milli ráðherranna og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Þau skilyrði eru sett fyrir lánveitingunni að stjórnvöld í Kýpur grípi til aðgerða til að rétta af fjárlagahallann, draga úr stærð bankakerfisins og hækka skatta.

Bankar í Kýpur stóðu berskjaldaðir gagnvart stöðu mála í Grikklandi, sem hefur nú þegar fengið afgreidd tvö neyðarlán.

Viðræðurnar hafa tekið langan tíma og verið erfiðar að sögn fréttaskýranda BBC. Hann segir að skýringuna megi að hluta rekja til þess að mörg Evruríki séu treg til að nota fé skattgreiðenda til að aðstoða erlenda viðskiptavini kýpverskra banka. Margir þeirra eru rússneskir auðmenn.

Þá hafa margir áhyggjur af því í Evrópu hvaðan fjármunirnir koma, þ.e. hvort þeirra hafi verið aflað með löglegum hætti. Þá hafa menn áhyggjur af því hvernig Kýpur stendur sig í baráttunni við peningaþvætti.

Samkvæmt samkomlaginu verður lagður skattur á bankainnistæður sem eiga að tryggja að umræddir fjárfestar leggi sitt af mörkum í björgunarpakkann. Þetta mun hins vegar eiga við allar innborganir. Hærri skattur verðu lagður á fjárhæðir sem eru yfir 100.000 evrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka