Tveir 16 ára piltar voru í dag fundnir sekir um að hafa nauðga 16 ára stúlku í bænum Steubenville í Ohio. Þetta mál hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum, annars vegar vegna þess að piltarnir eru efnilegir íþróttamenn og vegna þess að ofbeldi þeirra gegn stúlkunni rataði á netið.
Drengirnir eiga yfir höfði sér að verða dæmdir í unglingafangelsi þar sem þeir koma til með að dvelja þar til þeir eru orðnir 21 árs.
Piltarnir voru ákærðir fyrir að gefa jafnöldru sinni deyfilyf, nauðga henni, misþyrma henni gróflega og niðurlægja á ýmsan hátt. Fjöldi unglinga horfði á, en komu stúlkunni ekki til aðstoðar.
Piltarnir eru báðir í fótboltaliði menntaskóla bæjarins, en liðsmenn þess eru nánast í guðatölu meðal bæjarbúa. Algeng viðbrögð við því, þegar stúlkan lagði fram kæru, voru að hún hefði verið að reyna að koma sér í mjúkinn hjá „vinsælu strákunum“ hún hafi átt þetta skilið og að með kærunni væri hún að kasta rýrð á fótboltaliðið og bæjarfélagið í heild.
Málið hefur haft margvísleg áhrif. Til dæmis rannsakar FBI, bandaríska alríkislögreglan, nú hvort lögreglustjóri bæjarins hafi fengið líflátshótanir og einnig eru tölvupóstar þar sem fjallað er á neikvæðan hátt á ýmsa einstaklinga og yfirvöld í Steubenville í rannsókn.
Þá hafa tugir þúsunda skrifað undir yfirlýsingu á netinu þar sem þess er krafist að allir þeir sem horfðu á glæpinn og létu hjá líða að koma stúlkunni til aðstoðar verði sóttir til saka.
Piltarnir höfðu m.a. þvaglát yfir stúlkuna fyrir framan hóp fólks, niðurlægðu hana og viðhöfðu ýmsar kynferðislegar athafnir með henni fyrir framan aðra sem tóku athæfið upp á síma, bæði sem myndir og myndskeið og rataði margt af því á netið. Sumu var síðar eytt, en tölvuhakkarahópurinn Anonymous hefur látið málið til sín taka og grafið upp sumt af því efni sem eytt hafði verið.
Lögregla náði þó ýmsum sönnunargögnum og tók m.a. 17 farsíma í sína vörslu, en þeir innihéldu ýmist efni sem tengist málinu.
Verjandi piltanna sagði m.a. við réttarhöldin að stúlkan hefði aldrei sagt skýrt nei og því ætti að sýkna þá.