Forseti Simbabve, Robert Mugabe, flaug til Rómar í dag til að vera viðstaddur innsetningu Frans páfa. Mugabe er í farbanni og má ekki koma til landa Evrópusambandsins. Bannið gildir hins vegar ekki um Vatíkanið.
Mugabe er kaþólskur og orðinn 89 ára gamall. Hann heimsótti Vatíkanið síðast árið 2011.
Árið 2005 var hann viðstaddur útför Jóhannesar Páls páfa II. Í þeirri heimsókn tók Karl Bretaprins í hönd hans og var það mjög umdeilt.
Innsetning Frans páfa verður á morgun, þriðjudag og munu mörg hundruð af helstu þjóðarleiðtogum heims verða viðstaddir.
Mugabe hefur verið sakaður um gróf mannréttindabrot í Simbabve.