Sagði barnagirnd sjúkdóm en ekki glæp

Wilfrid Napier kardínáli.
Wilfrid Napier kardínáli. AFP

Suður-afrískur kardínáli hefur beðið fórnarlömb kynferðisofbeldis afsökunar á því að hafa í viðtali nýverið sagt barnagirnd sjúkdóm en ekki glæp.

„Ég bið fórnarlömb kynferðisofbeldis afsökunar á mismæli mínu,“ sagði kardínálinn Wilfrid Fox Napier á Twitter eftir viðtal á sunnudag í BBC.

Hann segir það sína skoðun og flestra annarra að barnagirnd sé sjúkdómur. Glæpurinn felist hins vegar í að brjóta gegn börnum. „Því verður að veita þeim sem haldnir eru barnagirnd meðferð. Það sem verður að refsa fyrir er misnotkun á börnum,“ segir hann.

Í viðtalinu við BBC sagði hann að barnagirnd væri „sjúkdómur en ekki glæpsamlegt ástand.“

Hann segir það kaldhæðnislegt að hann hafi verið gagnrýndur fyrir að vekja athygli á þessu og sakaður um að auka á sársauka fórnarlamba kynferðisofbeldis.

Í viðtalinu sagðist hann þekkja tvo presta sem hefðu sjálfir verið beittir kynferðisofbeldi sem börn og hefðu svo á fullorðinsárum orðið barnaníðingar. Vakti hann athygli á því að þeir sem væru sjálfir skemmdir vegna barnaníðar ættu ekki skilið að verða refsað.

Napier neitaði árið 2002 að reka prest sem sakaður var um barnaníð úr starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka