Umræðu um neyðarlán frestað aftur

Mótmælandi fyrir utan þinghúsið í Níkósíu, höfuðborg Kýpur. Á því …
Mótmælandi fyrir utan þinghúsið í Níkósíu, höfuðborg Kýpur. Á því stendur: „Evrópa er fyrir fólkið ekki fyrir Þýskaland“ PATRICK BAZ

Kýpverska þingið hefur frestað umræðu um neyðarlán upp á 10 milljarða evra til morguns. Umræðan átti upphaflega að fara fram á sunnudaginn en  var þá frestað til dagsins í dag. Mikil óvissa ríkir á mörkuðum en almenningur í Kýpur gerði bankaáhlaup á hraðbanka í gær vegna frétta um að innistæður yrðu skattlagðar.

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, á nú í viðræðum við formenn annarra flokka á kýpverska þinginu og hermir breska ríkisútvarpið BBC að hann muni freista þess að fá skilmálunum breytt í kjölfar hinna hörðu viðbragða almennings. Búið er að girða af þinghúsið í Níkósíu, höfuðborg Kýpur, til þess að koma í veg fyrir mótmæli.

Samkvæmt skilmálum lánsins átti að taka í eitt sinn 6,75% af öllum bankainnistæðum á Kýpur sem væru undir 100.000 evrum (um 16,3 milljónir króna) og 9,9% af öllum innistæðum sem væru yfir þeirri upphæð. Á móti myndu innistæðueigendurnir eignast hlut í bönkunum. Samkvæmt heimildum BBC vill Anastasiades lækka skattheimtuna á innistæður undir 100.000 evrum í 3% en hækka skattinn á stærri fjármagnseigendur í 12,5%. 

„Ósanngjörn, ófagmannleg og hættuleg“ ákvörðun

Ein ástæðan fyrir skattinum á innistæður er sögð vera sú að Rússneskir fjármagnseigendur hafa geymt háar fjárhæðir á kýpverskum bankareikningum og er uppi grunur um að einn tilgangur þess sé að stunda peningaþvætti. Vladimír Pútín, forseti Rússlands sagði í dag að ákvörðunin um að leggja skatt á innistæður væri „ósanngjörn, ófagmannleg og hættuleg“. Áætlað er að rússneskir bankar eigi innistæður í kýpverskum bönkum sem nemi um 12 milljarða Bandaríkjadali (um 1500 milljarða íslenskra króna). Dmitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði að ákvörðunin líktist hreinni eignaupptöku á annarra manna fé.

Margir Bretar búa einnig á Kýpur en tvær breskar herstöðvar eru í landinu. George Osbourne, fjármálaráðherra Bretlands, hefur lofað því að breskum ríkisborgurum verði bættur sá missir sem þeir muni verða fyrir verði af innistæðuskattinum.

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur kemur til fundar í þinghúsinu.
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur kemur til fundar í þinghúsinu. STAVROS IOANNIDES
„Merkel, þú stalst ævisparnaði okkar“ stendur á þessu mótmælaskilti.
„Merkel, þú stalst ævisparnaði okkar“ stendur á þessu mótmælaskilti. Yiannis Kourtoglou
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert