Frans páfi tekur formlega við þessu æðsta embætti kaþólsku kirkjunnar í dag við messu í Péturskirkjunni í Róm. Páfi kom akandi að Péturstorginu í svokölluðum „popemobile“ eða páfabíl með opna þaklúgu og veifaði til þeirra tugþúsunda sem hylltu hann og hrópuðu „Lengi lifi páfinn“.
Athöfnin, þar sem páfi verður settur inn í embætti, byggir á aldagömlum hefðum og íburðarmiklu sjónarspili. Hann mun biðjast fyrir við grafhýsi Péturs postula, sem var fyrsti páfinn, að því búnu munu kardínálarnir afhenda honum reifi af lambi sem er táknrænt fyrir hlutverk páfa sem sálnahirðis og að því loknu fær hann hring fiskimannsins. Yfirleitt er sá hringur úr gulli og sérhannaður fyrir hvern páfa, en Frans valdi silfurhring sem var hannaður fyrir nokkrum áratugum.
Nýi páfinn, Jorge Mario Bergoglio sem er fyrrverandi erkibiskup í Bueons Aires í Argentínu, hefur þegar unnið hug og hjörtu embættismanna í Vatíkaninu með frjálslegri og látlausri framgöngu sinni.
Mörg þúsund her- og lögreglumenn gæta öryggis í Vatíkaninu, en við athöfnina verður fjöldi fyrirmenna víðs vegar að úr heiminum.