Fjármálaráðherrar evrusvæðisins hafa komist að samkomulagi um að veita stjórnvöldum á Kýpur 10 milljarða evra neyðarlán til að koma í veg fyrir að bankakerfi landsins hrynji. Kýpur mun jafnframt halda evrusamstarfinu áfram.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að loka eigi Laiki Bank, sem er næststærsti banki landsins, og ljóst sé að innistæðueigendur, sem eiga meira en 100.000 evrur, muni standa frammi fyrir gríðarlegu tapi.
Aftur á móti er búið að tryggja allar innistæður sem eru lægri en 100 þúsund evrur.
Laiki verður skipt í „góða“ og „slæma“ banka og á endanum munu öll verðmæti vera færð inn í Kýpurbanka.
Seðlabanki Evrópu var búinn að gefa mönnum frest til dagsins í dag til að ná samkomulagi um lánveitinguna.
Fram kom á blaðamannafundi, sem fram fór í Brussel í Belgíu, að með þessu sé búið að koma í veg fyrir þá óvissu sem ríkti á Kýpur.