Sársaukafullar aðgerðir á Kýpur

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur.
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur. AFP

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur, segir þá skilmála sem fylgja 10 milljarða evra láni Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vera „sársaukafulla“ en heitir því að Kýpur muni bera barr sitt að nýju.

Anastasiades segir samningaviðræður við erlenda kröfuhafa ríkisins hafa verið einstaklega erfiðar og að þær hafi haft einungis einn tilgang: „Að bjarga landinu með því að sameina og straumlínulaga fjármálastofnanir okkar.“

„Þetta voru erfiðar stundir og á köflum spennuþrungnar,“ segir forsetinn. „Kýpur var hársbreidd frá efnahagslegum hamförum. Valkostir okkar voru ekki auðveldir og heldur ekki umhverfið.“

Búist er við því að allir bankar og fjármálastofnanir á Kýpur opni á morgun, fyrir utan tvo þá stærstu; Laiki-banka og Kýpurbanka sem opna á fimmtudaginn. Embættismenn vinna nú hörðum höndum að því að laga þá að þeim skilmálum sem þeim eru settir í björgunarpakkanum.

Kýpur er fimmta evruríkið til að fá aðstoð frá Evrópusambandinu, en áður höfðu Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn þegið aðstoð.

Laiki-bankinn er annar tveggja banka sem ekki opna á morgun.
Laiki-bankinn er annar tveggja banka sem ekki opna á morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert