Allir bankar á Kýpur verða lokaðir fram á fimmtudag, en áður hafði verið tilkynnt um að allir nema tveir yrðu opnaðir á morgun. Með þessari frestun á að tryggja að starfsemi banka og fjármálafyrirtækja gangi eins vel og hægt verður, miðað við aðstæður.
Þetta tilkynngi fjármálaráðherra landsins, Michael Sarris, í kvöld.
Fjármálamarkaðir brugðust neikvætt við fyrr í dag þegar Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands og formaður fjármálaráðherra Evruríkjanna, sagði að björgunaraðgerðirnar sem gripið var til vegna Kýpur gætu lagt línurnar fyrir önnur ríki sem kynnu að lenda í áþekkum vanda.
Nokkrum klukkustundum síðar tilkynntu yfirvöld á Kýpur um þessa frestun.