Petraeus baðst afsökunar

David Petraeus í háskólanum í Suður-Kaliforníu í gær.
David Petraeus í háskólanum í Suður-Kaliforníu í gær. AFP

David Petraeus, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), hefur beðið þá afsökunar sem hann „særði og olli vonbrigðum“ vegna framhjáhalds. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt í fyrsta sinn opinberlega eftir að hann sagði af sér vegna hneykslisins.

Petraeus flutti ræðuna í háskólanum í Suður-Kaliforníu. Þar sagði hann framferði sitt hafa sært bæði vini og vandamenn. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Hann bætti því við, að atvikið geti vonandi kennt öðrum að „lífið stoppar ekki við svona mistök og verður að halda áfram.“

Petraeus sagði af sér eftir að upp komst um framhjáhald hans með ævisöguritaranum Paulu Broadwell. Það var bandaríska alríkislögreglan sem komst á snoðir um málið. 

Hann ávarpaði um 600 gesti við árlegan kvöldverð nemenda sem hljóta hernaðarþjálfun við skólann. Áður en Petraeus hóf að ávarpa gesti var staðið upp fyrir honum og klappað. „Það er óþarfi að taka það fram, ég geri mér fulla grein fyrir því að þið sjáið mig í öðru ljósi nú en þið gerðuð fyrir einu ári,“ sagði Petraeus í framhaldinu.

Hann bætti því við, að það væri sjálfum sér að kenna hvers vegna hann væri þar sem hann er nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert