Skipa hrun-rannsóknarnefnd

Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, hefur ákveðið að lækka laun sín um fjórðung á meðan laun ráðherra munu lækka um 20%.

Aðstoðarmaður forsetans segir að Anastasiades hafi þegar haft samband við ríkisféhirði og óskað eftir því að laun hans yrðu lækkuð um 25%. Eins hefur forsetinn og ríkisstjórnin afsalað sér rétti til að fá greiddan þrettánda mánuðinn sem þeir eiga rétt á.

Í dag skipaði ríkisstjórnin þriggja manna nefnd sem ætlað er að rannsaka hvort að framin hafi verið saknæm brot í tengslum við bankahrunið þar í landi. Um er að ræða þriggja manna nefnd sem er skipum þremur fyrrverandi hæstaréttardómurum. Um svipaða nefnd er að ræða og rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var í kjölfar bankahrunsins hér á landi haustið 2008.

Ríkisstjórnin segir að nefndinni sé ætlað að rannsaka pólitíska ábyrgð á hruninu, sem og hjá hinu opinbera. Eins hvort lög hafi verið brotin í undanfara hrunsins.

Á Wall Street hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur þegar viðskipti hófust klukkan 13:30 að íslenskum tíma en bankaviðskipti hófust á Kýpur á ný klukkan 10 í morgun að íslenskum tíma. Er hækkunin rakin til þess að þrátt fyrir að einhverjar biðraðir hafi verið við banka hafi ekki komið til uppþota og allt farið fram með friðsamlegum hætti. Eins höfðu jákvæðar fréttir af smásölu í Þýskalandi góð áhrif á hlutabréfaverð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka