Norður-Kórea undirbýr árásir

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu að störfum.
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu að störfum. AFP

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipaði her landsins í morgun að undirbúa öll flugskeyti fyrir árásir á Bandaríkin og bandarískar herstöðvar í Kyrrahafinu og í Suður-Kóreu.

Hann heitir því að jafna reikningana við Bandaríkin eftir að bandarískar herþotur sem ekki sjást á ratsjám og geta borið á annan tug kjarnorkusprengna, tóku þátt í heræfingum í Suður-Kóreu í gærkvöldi. Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu segir þetta til marks um það að Bandaríkjamenn hyggist varpa kjarnorkusprengjum á Norður-Kóreu.

„Nú er kominn tími til að jafna reikningana við bandarísku heimsvaldasinnana,“ lýsti Kim yfir við mikinn fögnuð þegna sinna sem söfnuðust saman í þúsundatali í höfuðborginni Pyongyang.

Ekki er vitað til þess að Norður-Kórea hafi yfir þeim vopnabúnaði að ráða sem þarft til að ráðast á Bandaríkin.

Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í morgun að Bandaríkin væri viðbúin að öllum aðgerðum sem Norður-Kóreumanna.

Kínverjar, sem eru einir af fáum bandamönnum Norður-Kóreumanna á alþjóðavettvangi, hvetja til stillingar og segja að allir aðilar þurfi að leggjast á eitt til þess að koma í veg fyrir að ástandið magnist enn frekar.

Á YouTube síðu norður-kóreskra stjórnvalda, sem ber heitið Uriminzokkiri, hefur verið sett sviðsett myndband sem sýnir norður-kóreskt flugskeyti hæfa bandaríska sprengjuflugvél sem síðan brotlendir í Suður-Kóreu með þeim afleiðingum að kjarnorkusprengjurnar springa á suður-kóreskri grund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert