Rússar hvetja til stillingar

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, arar við því að sívaxandi spenna …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, arar við því að sívaxandi spenna á milli Norður- og Suður-Kóreu gæti leitt til ófremdarástands. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, varar við því að sívaxandi spenna á milli Norður- og Suður-Kóreu gæti leitt til ófremdarástands og hvetur alla þá sem hlut eiga að máli að sýna stillingu.

„Einhliða ákvarðanir eru teknar í Norður-Kóreu sem eru síðan staðfestar með sívaxandi viðbúnaði hersins,“ sagði Lavrov á blaðamannafundi í morgun. „Við teljum að það sé nauðsynlegt að viðkomandi aðilar notfæri sér ekki ástandið til þess að gera upp ýmis deilumál.“

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipaði her landsins í morgun að undirbúa öll flugskeyti fyrir árásir á Bandaríkin og bandarískar herstöðvar í Kyrrahafinu og í Suður-Kóreu.

Heimildamaður innan rússneska hersins segir í samtali við AFP-fréttastofuna að Norður-Kóreumenn hefðu ekki vopnabúnað til þess að ráðast á Bandaríkin eða bandarískar herstöðvar í Kyrrahafinu. „Ég tel að slíkar árásir séu ekki gerlegar,“ segir heimildamaðurinn sem ekki vildi láta geta nafns síns og sagði að með framferði sínu gæfu Norður-Kóreumenn Bandaríkjunum ástæðu til að auka við herafla sinn í þessum heimshluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert