Tæplega 900 þúsund dönsk skólabörn sátu heima í dag þar sem verkbann hefur verið sett á um 60 þúsund grunnskólakennara í Danmörku af samtökum sveitarfélaga. Viðræður um breytingar á vinnufyrirkomulagi kennara runnu út í sandinn í síðustu viku.
Kennarar komu saman fyrir utan flesta grunnskóla landsins til að mótmæla verkbanninu en alls óvíst er hversu lengi það á eftir að standa.
Forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, segir enn of snemmt að tala um að stjórnvöld grípi inn í deilu kennarara og sveitarfélaganna. Þetta kom fram í máli hennar á vikulegum fundi með fjölmiðlum í dag.
Stjórnvöld í Danmörku hafa skoðað möguleikann á að lengja skóladaginn í þeirri von að það muni bæta námsárangur danskra barna.
Thorning-Schmidt segir það óásættanlegt að þrjú til fjögur börn í hverjum bekk nái ekki þeirri lámarksþekkingu sem nauðsynleg er til þess að halda áfram námi.
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki birt nákvæma útlistun á því hvernig staðið verði að breytingunni er talið að kennarar eigi að eyða lengri tíma í skólastofunni en færri tímum í undirbúning kennslu.
Thorning-Schmidt sagði á fundinum að stjórnvöld gerðu sér fulla grein fyrir því að það geti komið sér afar illa fyrir fjölmarga foreldra að börn geti ekki farið í skólann enda vinna flestir danskir foreldrar úti.