Stjórnvöld á Kýpur hafa dregið úr þeim höftum sem gilda um millifærslur fyrirtækja og útgáfu ávísana.
Rannsóknarnefnd sem ríkisstjórn Kýpur skipaði á fimmtudag hóf störf í dag en henni er ætlað að rannsaka ástæður bankahrunsins. Litlu mátti muna að Kýpur færi í þrot en Alþjóðagjaldeyrissjóður, Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu kom ríkinu til bjargar á síðustu stundu.
Eftir viðræður stjórnvalda í Níkósíu við alþjóðlega lánadrottna hefur Seðlabanki Kýpur tilkynnt að dregið verði úr höftum sem hafa gilt frá því bankar voru opnaðir á ný á fimmtudag. Hefur heimild fyrirtækja til að millifæra verið hækkuð úr 5 þúsund evrum í 25 þúsund evrur og eins er heimilt að fá skipt ávísunum upp á 9 þúsund evrur að hámarki.
Jafnframt verður viðskiptavinum Kýpurbanka, sem er stærsti bankinn á Kýpur, heimilt að taka út 10% af innistæðum sínum sem eru yfir 100 þúsund evrur eða meira. Mögulega geta þeir sem eiga yfir 100 þúsund evrur á reikningum í bankanum tapað 60% af innistæðum sínum yfir 100 þúsund evrur en það fer allt eftir því hvað verður til skiptana eftir að skilanefnd bankans hefur lokið störfum. Bankinn verður sameinaður næst stærsta banka landsins Laiki. Innistæðueigendur hjá Laiki bankanum sem eiga yfir 100 þúsund evrur þurfa enn að doka við hvað varðar úttektir af reikningum sínum.