Fjármálaráðherra Kýpur, Michalis Sarris, hefur sagt af sér og segir að ástæða afsagnarinnar sé sú að hann hafi áður verið stjórnarformaður Laiki bankans sem rambaði á barmi gjaldþrots.
Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, hefur fallist á afsögn Sarris.
Fyrr í dag tók sérstök rannsóknarnefnd til starfa sem skipuð er fyrrverandi hæstaréttardómurum. Er nefndinni ætlað að rannsaka hvað hafi valdið því að landið varð nánast gjaldþrota í síðasta mánuði. Meðal annars hver hlutur stjórnmálamanna og bankamanna hafi verið og hvort saknæm brot hafi verið framin fyrir hrunið.