Leikarinn Gérard Depardieu er svo upptekinn við tökur á kvikmynd um fyrrverandi forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, að hann gleymdi að mæta fyrir dómara í París í morgun.
Átti Depardieu að mæta við aðalmeðferð í héraðsdómi en hann er ákærður fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Er þetta í annað skiptið sem hann mætir ekki í réttarsalinn.
Lögfræðingur leikarans sagði við réttarhöldin í morgun að Depardieu hafi svo sannarlega viljað mæta en því miður hafi ekki verið möguleiki á því fyrir hann en tökur á kvikmyndinni fara nú fram í New York. Depardieu fer með hlutverk Strauss-Kahn sem hefur verið áberandi í kastljósi fjölmiðla eftir að hann var kærður fyrir nauðgun á herbergisþernu í New York um miðjan maí árið 2011.
Depardieu, sem er 64 ára gamall, var handtekinn í París í nóvember eftir að hafa dottið af mótorhjóli sínu. Í ljós kom að hann var drukkinn og á hann yfir höfði sér allt að 4.500 evra sekt og jafnvel fangelsisvist.
Depardieu, var áður Frakki en er nú Rússi, en það var Valdimír Pútín, forseti Rússlands, sem veitti Depardieu rússneskan ríkisborgararétt eftir að leikarinn hótaði að flytja frá Frakklandi vegna hárra skatta þar í landi.