Umdeilt fóstureyðingarmál rannsakað

Savita Halappanvar var neitað um fóstureyðingu og lét lífið vegna …
Savita Halappanvar var neitað um fóstureyðingu og lét lífið vegna blóðeitrunar eftir fósturlát.

Réttarrannsókn hófst í Írlandi í dag á dauða indverska tannlæknisins Savita Halappanavar, en hún lést á Galway háskólasjúkrahúsinu í október í kjölfar fósturláts, eftir að hafa verið neitað um fóstureyðingu. Ekkill hennar segir að ítrekað hafi verið fyrir þeim hjónum að Írland væri kaþólskt land.

Savita Halappanavar var gengin 17 vikur þegar hún var lögð inn á Galway sjúkrahúsið þann 21. október í fyrra. Hún lést viku síðar, að því er talið er af völdum blóðeitrunar í kjölfar þess að hún missti fóstrið.

Fóstrið enn með hjartslátt

Eiginmaður hennar, verkfræðingurinn Praveen Halappanavar, segir að þau hafi óskað eftir fóstureyðingu þar sem ljóst hafi verið að fóstrið ógnaði lífi hennar, en þrátt fyrir ítrekaða beiðni var þeim hafnað þar sem enn mældist hjartsláttur í fóstrinu.

Heilbrigðisyfirvöld unnu skýrslu um málið sem afhent var ekklinum fyrir páska. Þar kemur m.a. fram að starfsfólk sjúkrahússins hafi lagt of mikla áherslu á að ekki mætti grípa inn í á meðan enn mældist hjartsláttur í fóstrinu og að þeim hafi yfirsést hin lífshættulega blóðeitrun. 

Jafnframt kemur þar fram að ruglings eða misskilnings hafi gætt meðal starfsfólks spítalans um hvernig túlka ætti írsk fóstureyðingarlög. Heilbrigðisyfirvöld hafa beðist afsökunar á því hvernig komið var fram við hjónin.

Stjórnvöld endurskoða löggjöfina

Dagblaðið Independent hefur eftir lögmanni ekkilsins að hann sé ósáttur við skýrsluna.  Til rannsóknarinnar sem hefst í dag verður m.a. kallaður fjöldi vitna og heitir dánardómstjórinn sem annast hana því að gagnsæi verði haft að leiðarljósi.

Dauði Savita Halappanavar vakti umræðuna um fóstureyðingar af dvala í Írlandi og hefur hart verið deilt um lögin undanfarna mánuði. Fjöldi mótmæla hefur verið boðaður bæði af hálfu stuðningsmanna og andstæðinga fóstureyðinga. Írsk stjórnvöld heita því að endurskoða löggjöfina þannig að fóstureyðingar verði heimilaðar ef fóstrið ógnar lífi móðurinnar.

Frétt mbl.is: Lést eftir að hafa verið synjað um fóstureyðingu

Ekkillinn Praveen Halappanavar sættir sig ekki við skýrslu stjórnvalda um …
Ekkillinn Praveen Halappanavar sættir sig ekki við skýrslu stjórnvalda um dauða konu sinnar óg fór fram á réttarrannsókn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert