Skaut ættingja og vini til bana

Ekki er vitað hvers vegna karlmaður á sjötugsaldri skaut þrettán ættingja og vini til bana í serbnesku þorpi í nótt. Maðurinn er í lífshættu auk tveggja annarra. Meðal hinna látnu er tveggja ára gamalt barn en fjöldamorðin eru þau skelfilegustu í landinu í tvo áratugi.

Maðurinn skaut flest fórnarlamba sinna í höfuðið en þau voru í fastasvefni. Að því loknu reyndi hann að fremja sjálfsvíg með því að skjóta sjálfan sig. Tólf létust á staðnum en þrettánda fórnarlambið lést á gjörgæslu í nótt, að sögn yfirmanns serbnesku lögreglunnar, Milorad Veljovic. Um er að ræða sex konur og sex karla auk barnsins.

Í fréttum ríkissjónvarpsins, RTS, kom fram að árásarmaðurinn heitir Ljubisa Bogdanovic. Hann bjó í þorpinu Velika Ivanca líkt og fórnarlömbin en flestir þorpsbúa eru ættingjar hans. Morðin voru framin í fimm húsum í þorpinu um þrjú leytið í nótt að íslenskum tíma.

Talið er að morðinginn hafi fyrst myrt son sinn, sem er 42 ára og síðan móður sína. Bogdanovic fannst í garði eins hússins þar sem hann reyndi að fremja sjálfsvíg. Hann er nú í lífshættu á gjörgæslu.

Nágranni morðingjans segist hafa rætt við hann í gær og ekkert virtist ama að honum. „Hann var góður nágranni. Ekki hefði verið hægt að ímynda sér að þetta gæti gerst. Enginn veit ástæðuna nema hann sjálfur,“ segir Stanica Kostadinovic, einn íbúa í þorpinu.

Ekki er vitað hvers vegna maðurinn myrti nágranna og ættingja …
Ekki er vitað hvers vegna maðurinn myrti nágranna og ættingja í nótt AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert