Þriðjungur telur að forsetinn hafi verið myrtur

Leiðtogi stjórnarandstöðinnar í Póllandi lagði í dag blómsveig að minnismerki um fyrrverandi forseta landsins, Lech Kaczynski, sem lést í flugslysi í Rússlandi fyrir þremur árum. Einn af hverjum þremur Pólverjum telur að forsetinn hafi verið ráðinn af dögum.

Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og tvíburabróðir Lechs Kaczynskis, tók þátt í minningarathöfninni ásamt fleiri liðsmönnum íhaldsflokksins Laga og réttar (PiS). Sungu þeir þjóðsönginn í minningu þeirra 96 sem létust í flugslysinu hinn 10. apríl 2010 er vél forsetans var að koma til lendingar í Smolensk í Rússlandi. Ásamt honum fórust Maria kona hans og 94 forustumenn í pólsku þjóðlífi, stjórnmálamenn, embættismenn og kirkjuleiðtogar.

Liðsmenn PiS telja að flugslysið hafi ekki verið slys heldur morð þrátt fyrir niðurstöður rússneskra og pólskra rannsóknarnefnda um að um slys hafi verið að ræða. Í könnun sem birt var í síðasta mánuði kom fram að 33% Pólverja telja að ekki sé hægt að útiloka að um morð hafi verið að ræða.

Flugslysið var mikill harmleikur fyrir Pólverja. Bræðurnir Lech og Jaroslaw voru eineggja, en þótt erfitt væri að greina á milli þeirra voru þeir ólíkir í háttum. Lech var fjölskyldumaður, en Jaroslaw einfari, sem bjó hjá mömmu sinni. Jaroslaw hefur verið lýst sem hugmyndafræðingnum, en Lech hafi séð um að setjast í embættin. Tvíburarnir þóttu skarpir í gagnrýni sinni, en sérsinna og var litið á þá sem utangarðsmenn í pólitík á árunum eftir hrun járntjaldsins. Eftir aldamót fór þeim hins vegar að vaxa ásmegin og árið 2005 uppskáru þeir, sigruðu fyrst í þingkosningum og síðan í forsetakosningum. Lech varð forseti og Jaroslaw forsætisráðherra árið eftir.

Eftir slysið bauð Jaroslaw Kaczynski sig fram til forseta. Hann komst í aðra umferð og tapaði þá naumlega með 47% atkvæða.

Pólska dagblaðið Rzeczpospolita greindi frá því október í fyrra að leifar af sprengiefnum hefðu fundist í flaki forsetaflugvélarinnar.

Í frétt blaðsins segir m.a. að leifar af TNT og nítróglyseríni hafi fundist á 30 sætum vélarinnar og á samskeytum vélarbolsins og annars vængsins.

Í frétt Rzeczpospolita segir að hugsanlega megi rekja efnaleifarnar til ósprunginna sprengja úr seinni heimsstyrjöldinni en í henni voru harðir bardagar háðir í Smolensk, þar sem vélin brotlenti.

Í pólskri skýrslu, sem kom út í júlí 2011, var áhöfninni kennt um flugslysið en hún var sögð hafa verið illa þjálfuð. Í skýrslunni voru „öfga-útskýringar“ á tildrögum slyssins útlokaðar, s.s. að um skemmdarverk hefði verið að ræða eða að þrýst hefði verið á flugáhöfnina um að lenda þrátt fyrir slæm veðurskilyrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert