Stúlkan með „útblásna höfuðið“ þarfnast kraftaverks

Örvæntingarfullur faðir á Indlandi sem á unga dóttur er þjáist af sjúkdómi sem veldur því að höfuð hennar er gríðarlega bólgið, segist biðja um kraftaverk til að bjarga lífi hennar.

Stúlkan heitir Roona Begum og er aðeins 18 mánaða gömul. Hún er með sjúkdóm sem kallast hydrocephalus eða vatnshöfuð, sem orsakast af óeðlilegri aukningu á heila- og mænuvökva í höfði. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Tipura-héraði í norðaustur Indlandi.

Sjúkdómurinn er lífshættulegur og er ummál höfuðs Roonu litlu nú 91 sentímetri. Bólgan þrýstir mjög á heila hennar.

Faðir hennar, Abdul Rahman, er aðeins 18 ára. Hann býr í moldarkofa ásamt fjölskyldunni í þorpinu Jirania Khola. Hann vonast eftir kraftaverki til að bjarga einkadótturinni.

„Með hverjum deginum hef ég séð höfuð hennar stækka - allt frá því hún fæddist,“ segir faðirinn sem er ólæs verkamaður.

Læknar sögðu honum að fara með barnið til sérfræðings í einhverri stórborginni, en hann hefur ekki efni á því.

„Það er mjög erfitt að sjá hana þjást. Ég bið um kraftaverk mörgum sinnum á dag, svo að barninu mínu geti liðið betur,“ segir hann.

Talið er að um eitt af hverjum 500 börnum fái þennan sjúkdóm og helsta meðferðin er skurðaðgerð þar sem vökva er tappað af höfðinu. Vökvinn er ekki tekinn úr líkamanum heldur dælt um hann allan svo að blóðrásin geti unnið úr honum.

Hins vegar er það mjög sjaldgæft að höfuð stækki jafn mikið og átt hefur sér stað hjá Roonu. Indverskur taugalæknir sem AFP fréttastofan ræðir við segir að eina von stúlkunnar sé að fara í skurðaðgerð. Aðgerðin sé ekki talin mjög áhættusöm.

Aðgerðin kostar sitt - eða um 2.300 Bandaríkjadali en faðir stúlkunnar vinnur sér inn 2,75 dali á dag í múrssteinsverksmiðju.

Roona er nú rúmföst og getur ekki hreyft höfuðið. Hún er þrátt fyrir sjúkdóminn glaðlynt barn og brosir og hlær.

Móðirin, Fatema Khatun, segir að ástand stúlkunnar versni með hverjum deginum sem líður. Hún borðar sífellt minna, kastar oft upp og er að horast.

Faðir stúlkunnar, Abdul Rahman (t.h) ásamt dóttur sinni, Roonu Begum …
Faðir stúlkunnar, Abdul Rahman (t.h) ásamt dóttur sinni, Roonu Begum sem er með vatnshöfuð og þarf á skurðaðgerð að halda. AFP
Fatima Khatun ásamt dóttur sinni Roonu Begum.
Fatima Khatun ásamt dóttur sinni Roonu Begum. AFP
Roona Begum er aðeins 18 mánaða og fárveik.
Roona Begum er aðeins 18 mánaða og fárveik. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert