Beið eftir föður sínum við marklínuna

Martin Richard var 8 ára gamall og ætlaði að fagna …
Martin Richard var 8 ára gamall og ætlaði að fagna föður sínum þegar hann kæmi í mark í maraþoninu.

Litli drengurinn sem lét lífið í Boston maraþoninu í gær hét Martin Richard og var 8 ára gamall. Hann fylgdist með hlaupinu við marklínuna og ætlaði að taka á móti föður sínum þegar hann kæmi í mark. Móðir hans og systir særðust einnig alvarlega þegar sprengjurnar sprungu og herma fregnir að systir hans hafi misst fótinn.

Martin Richard var einn þriggja sem létu lífið í sprengingunum og sá eini sem hefur verið nafngreindur opinberlega enn sem komið er. Nágrannar fjölskyldunnar í Dorchester í Boston hafa margir lagt blóm og tuskudýr við dyrapallinn.

Boston Globe hefur eftir nágranna fjölskyldunnar, Dan Aguilar, að erfitt sé að sætta sig við það sem gerðist. „Þessi litli drengur kemur aldrei heim aftur. Það er óraunverulegt að hugsa til þess. Ég á engin orð til að lýsa þessu. Engin orð.“

Enginn hefur enn lýst ábyrgð sinni á sprengjutilræðinu í Boston. Auk hinna þriggja sem létust særðust yfir 100 manns og margir mjög alvarlega. Sögur þeirra hafa smám saman verið að heyrast í dag, þar á meðal saga tveggja bræðra, 31 og 33 ára, sem fylgdust með maraþoninu og misstu báðir fótlegg þegar sprengjurnar sprungu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert