Ríkisstjóri Massachusetts, Deval Patrick, sagði í upphafi blaðamannafundar í dag vegna sprenginganna í Boston í gær að einu sprengjurnar sem hefðu fundist væru þær tvær sem sprungu skammt frá marklínu Boston-maraþonsins. Áður hafði komið fram í fjölmiðlum að fleiri ósprungnar sprengjur hefðu fundist í borginni.
Fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar FBI ítrekuðu þetta á fundinum og sögðu að skýringin á fréttum um annað væri líklega sú að fundist hefðu ýmsir pakkar sem hefðu verið teknir til rannsóknar. Engin sprengiefni hefðu hins vegar fundist í þeim. Ekki lægju fyrir frekari upplýsingar um það hverjir kynnu að bera ábyrgð á sprengingunum en allt yrði hins vegar gert til þess að hafa uppi á þeim.
Fulltrúar FBI hvöttu fólk ennfremur til þess að hafa samband við yfirvöld ef það hefði einhverjar upplýsingar um árásina. Þegar hefði borist fjöldi ábendinga sem verið væri að fara yfir. Fólk var sérstaklega hvatt til þess að leggja fram myndir og myndbandaupptökur einkum frá því þegar sprengingarnar áttu sér stað.
Tekið var fram að búast mætti við því að viðvera lögreglu yrði meiri í Boston á næstunni og þá einkum á því svæði þar sem sprengingarnar urðu en einnig meðal annars á alþjóðaflugvelli borgarinnar. Var fólk hvatt til þess að trufla ekki rannsókn málsins en halda að öðru leyti áfram sínu daglega lífi.
Fram kom á fundinum að enginn hefði verið handtekinn enn en margir hafi þegar verið yfirheyrðir vegna málsins. Ekki væri vitað til þess að hótun hefði borist áður en sprengingarnar urðu. Þá væri ekki talin hætta á frekari árásum.