Bandaríkin eru ekki enn tilbúin að viðurkenna Nicolas Maduro sem forseta Venesúela, eftir tæpan sigur hans í kosningum. Þetta sagði John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag. Maduro svaraði um hæl og sagði að íbúar Venesúela kæri sig kollótta um viðurkenningu Bandaríkjanna.
Hæstiréttur Venesúela hafnaði í dag kröfu um endurtalningu atkvæða í forsetakosningunum. Nicolas Maduro fór með nauman sigur af hólmi en hann var hægri hönd Hugo Chavez heitins, sem lést í mars 58 ára að aldri eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Töluverð spenna hefur ríkt í Venesúela síðan á kjördag um helgina og á mánudag brutust út óeirðir þar sem 7 manns létust og tugir slösuðust. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Henrique Capriles, viðurkennir ekki sigur Maduro og það gera Bandaríkin ekki heldur.
„Okkur er sama um viðurkenningu ykkar,“ sagði Maduro í dag eftir að Kerry sagði sigur hans ekki viðurkenndan í Washington. „Við höfum ákveðið að vera frjáls og við ætlum að vera frjáls og sjálfstæð, með eða án ykkar.“