Ekki hafa borist staðfestar tölur af mannfalli í kjölfar sprengingar í áburðarverksmiðju í smábænum West í Texas. Slökkviliðsmenn í sjálfboðastarfi voru að kljást við eld þegar sprengingin varð en fimm slökkviliðsmanna er saknað. Áburður er kraftmikið efni sem hefur verið notað í sprengiefni.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir slökkviliðsmenn fylgjast vel með framvindu mála þegar slíkir atburðir eiga sér stað en jafnframt að ekki sé talið að sambærileg sprenging geti orðið í verksmiðjum hér á landi.
Um 160 manns hafa leitað sér hjálpar á spítölum í nágrenni West og á milli 50 og 60 hús í nágrenninu eru talin ónýt eða mikið skemmd, þar á meðal er hjúkrunarheimili með 133 vistmönnum en verið er að kanna afdrif þeirra. Lögregluyfirvöld segja að ekkert bendi til að sprengingin hafi verið af mannavöldum þó ekkert sé útilokað í þeim efnum.