Minnti á skýstrók

Enn er slökkviliðsmanna saknað í West í Texas en þeir voru í brunaútkalli þegar sprengingin varð í áburðarverksmiðju í útjaðri bæjarins í gærkvöldi. Vitni segja að sprengingin hafi minnt á skýstrók.

Yfir 160 slösuðust í sprengingunni og vitað er að 5-15 eru látnir. Óttast er að sú tala eigi eftir að hækka.

Hjálparstarfsmenn eru enn að ganga á milli húsa í bænum West í Texas þar sem kannað er hvort einhverjir finnist á lífi í rústunum.

Alls búa um 2.700 manns í West en bærinn er í 32 km norður af borginni Waco.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er unnið að rannsókn á því hvað olli sprengingunni en ekki er talið að um hryðjuverk sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert