„Atburðirnir síðasta kvöld voru sannkölluð martröð,“ sagði Rick Perry ríkisstjóri Texas í dag um sprenginguna í áburðarverksmiðju sem lagði smábæinn West nánast í rúst. Björgunarsveitir í Texas eru í kappi við tímann í leit að eftirlifendum. Perry hefur beðið Bandaríkjaforseta um að lýsa yfir neyðarástandi á svæðinu.
„Þessi harmleikur snertir hverja einustu fjölskyldu, nánast hvern einasta bæjarbúa,“ sagði Perry. Um 2.800 manns búa í bænum West og er mikill meirihluti þeirra afkomendur tékkneskra innflytjenda á 19. öld.
Enn er óljóst hve margir létust í sprengingunni, lögreglustjórinn W. Patrick Swanton segir að látnir gætu verið á bilinu 5 til 15 talsins en búast megi við því að sú tala hækki en vonast er til þess að einhverjir finnist á lífi í rústum verksmiðjunnar.
Einnig er leitað í rústum barnaheimilisins og íbúðabyggingar sem hrundu í nágrenninu. Yfir 160 manns hafa fengið aðhlynningu á sjúkrahúsum í Texas í kjölfar sprengingarinnar. Allt að 75 manns misstu heimili sín í sprengingunni, en ekki er enn vitað fyrir víst hvað olli henni.